19.1.2007 | 14:36
margur gerir ráð fyrir þeim degi sem aldrei kemur
Eftir að hafa velt fyrir mér tímanum hér áður þá gerði ég nokkuð sem kom mér sjálfum á óvart. Ákvörðun hafði verið tekin um úrbætur, forgangsröðun, markmiðasetningu og almennt jákvætt hugarfar. Það sem kom mér á óvart var að ég fór út í bókabúð og náði mér í bókina Tímastjórnun í starfi og einkalífi eftir Ingrid Kuhlman. Með lestri á þessari bók ætla ég að bæta stjórnun á tímanum mínum og forgangsraða verkefnum. Eftir að hafa gluggað í bókina þá sé ég strax þætti sem hægt er að bæta. Talað er um innri- og ytri tímaþjófa sem taka af mér allar afsakanir því mínir tímaþjófar eru innri og koma þar ytri aðstæður málinu lítið við. Mikið hefði verið gott að skella skuldinni á t.d. bilunum, mistök annarra, skipulagsleysi annarra eða lélegum móral.
Mín verkefni eru t.d. frestun, skortur á sjálfsaga og skipulagsleysi en það eru þættir sem Ingrid talar um í bók sinni. Það er þekkt að frestun er einn stærsti tímaþjófurinn og það er þess vegna sem ég er svo stoltur af sjálfum mér að hafa drifið í að gera eitthvað í málunum, náð mér í lesefni og byrjað. Núna verða mínir klukkutímar jafn langir og hjá þér.
Ingrid talar um nokkrar ástæður þess að við frestum verkefnum og auðvitað gat ég merkt við nokkrar þeirra. Ótti við að taka áhættu, óljós markmið með verkefninu, verkefnið má bíða betri tíma eru verkefni sem ég fer að takast á við í náinni framtíð (var þetta nokkuð frestunarlegt orðalag ?). Hlakka til að takast á við framtíðina.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.