Offitufaraldur þjóðarinnar

Var að lesa grein í fréttablaðinu í dag 26. 11. 2007 og í henni kemur fram nýr sannleikur að offitufaraldurinn muni kosta þjóðina aukalega 2 milljarða á ári. Eða er þetta það sem við höfum vitað lengi? Ég hef hlustað á Dr. Jón Óttar oftar en einu sinni spá því að við íslendingar munum taka hratt fram úr Bandaríkjamönnum í þessum efnum. Allt sem Kanarnir gera gerum við betur. Einnig mun veðrátta og skammdegi setja þunga sinn röngu megin á vogarskálarnar fyrir okkur. Það eru bara þeir hörðustu sem láta sig hafa það að fara út í gönguferðir og fleira til að hrista af sér hamborgarann.

Önnur frétt í sama blaði vakti athygli mína en einhver jákvæður einstaklingur vill bæta andrúmsloft Patreksfjarðar þessa dagana. Vonandi á þetta eftir að smita út frá sér og veggjakrotarar framtíðarinnar skilja eftir sig jákvæð uppbyggjandi skilaboð. Áfram þú... hver sem þú ert...


Menntun ??

Ég er nýkominn úr foreldraviðtölum vegna grunnskólagöngu þriggja sona minna 7, 9 og 12 ára sem er ekkert óeðlilegt, held að flestir foreldrar fari í slík viðtöl. En það eru kröfurnar sem settar eru á börnin okkar sem ég er að velta fyrir mér. Hver man ekki eftir samanburði á stærðfræðihæfileikum íslenskra barna við önnur heimsins lönd (þessi setning byrjar bara eins og sjónvarpsmarkaðurinn he, he ), íslensku börnin voru langt á eftir þeim bestu í stærðfræði. Börnin í Singapúr stóðu okkar vesælu börnum mun framar og allt landið skalf af tilhugsuninni um að ísland yrði yfir hlaðið heimsku fullorðnu fólki eftir 20 ár. Ég var svo heppinn að hitta kennara frá Singapúr og ræddi einmitt þessi mál við hana. Ég fékk mikið sjokk yfir því sem ég heyrði, því 3 ára byrja börn að læra að lesa og skrifa á 2 tungumálum. Mikill agi er í skólakerfinu og í Singapúr er mjög há tíðni sjálfsmorðs meðal unglinga vegna pressu á að standa sig vel og helst betur en það. Ég varð nokkuð sáttur við árangur okkar barna í timss könnuninni sem var ferð 1997 minnir mig  því mitt mat á menntun barna er ekki nálægt mati ráðamanna í t.d. Singapúr. 

Sex ára tók yngsti sonur minn stærðfræðipróf og fékk 6 í einkunn þó hann kunni þá að leggja saman tvær 2 stafa tölur og setja dæmið upp. 23+33=56 :) (þetta reiknaði ég sjálfur Wink ). Hann var ekki upplagður akkúrat þá stundina, en hvenær er maður upplagður til að taka próf 6 ára gamall? Á maður ekki að fá tækifæri til að vera barn og þykja skemmtilegt í skólanum? Er þetta gert til að þau séu vel undirbúin fyrir 4. bekkjar samræmt próf því skólarnir eru bornir saman eftir því og enginn skóli vill koma illa út úr þeim samanburði?

Hvernig í ósköpunum á skóli að getað verið með einstaklingsmiðað nám þegar strax eru komin ein rétt krafa á námsárangur 9 ára gamals barns. Allir verða að klára sama námsefnið á sama tíma ef réttur árangur á að nást í samræmdum prófum.

 

 


Smekkur

Ég hef verið svo heppinn að getað leyft mér að hlusta á tónlist í gegnum árin, ekki allir sem gefa sér þann tíma sem þarf til þess. Ég fór að velta fyrir mér nokkrum tónlistarmönnum sem ég hef hlustað á síðustu ár og síðustu daga. Siggi Björns er skemmtilegur trúbadúr sem og Orri Harðar, Dóri í Vinum Dóra var einnig hlustað mikið á á sínum tíma. Björn Jörundur vakti athygli mína með Ný Dönsk, Megas með sinni alkunnu snilli, Magnús Eiríksson og Baggalútur hefur alltaf átt góða spretti og alltaf var beðið eftir jólalaginu frá þeim. Núna síðustu misseri hafa tónlistarmenn eins og Benni Hemm Hemm, Hjálmar og Sprengihöllin vakið athygli mína þó ekki hafi ég gert mér ferð til að kaupa þeirra tónlist, hlustað á í útvarpi frekar.

En af hverju er ég að telja upp alla þessa tónlistarmenn ?

Þetta eru nokkrir nefndir tónlistarmenn sem eru það hugrakkir að syngja fyrir okkur án þess að hafa til þess sérstaklega hljómfagra rödd, sumir þeirra það sem kallað er "falskir", sem er frábært fyrir okkur hin sem einnig hafa miður heppnaða söngrödd. Ég get alltaf tekið undir og sungið með flestum þessara tónlistarmanna án þess að fá samviskubit yfir að skemma fyrir þeim. Ég hækka alltaf í útvarpinu og syng með Magga Eiríks og Megasi svo einhverjir séu nefndir.

Ég held að röddin mín ráði tónlistarvali mínu frekar en tóneyrað góða. Dæmi um erlenda tónlistarmenn sem ég hlusta einnig á:

Bob Dylan, Neil Young, Tom Waits, Violent Femms og svo má lengi telja.

Hvað ræður tónlistarsmekk mínum ? Þínum ?

 Þegar stórt er spurt...


8 mánuðir

Allt læstVá... allt er nú hægt. Það eru komnir c.a. 8 mánuðir síðan síðast var færð færsla inn á þetta bloggsvæði. Ég var að flakka á netinu undir miðnætti og sá þá að hægt var að nálgast glatað lykilorð á moggablogginu, vá þvílík uppgötvun :) Ég skellti mér að sjálfsögðu á eitt stykki nýtt lykilorð, skoðaði bloggið hjá kunningjum mínum og sá að ég verð að byrja aftur. Það er ekki eins og lífið hafi staðið í stað síðustu 8 mánuði, nei það er ekki svo. Fyrst skal nefna nýjasta demantinn minn, sá fjórði í röðinni, hún Hrefna Rún sem fæddist 26 mars á þessu ári. Þá eru börnin mín og Ásu orðin 4 - Halldór Logi 12 ára, Arnór Hugi 9 ára, Sigurjón Hrafn 7 ára og Hrefna Rún að verða 7 mánaða. Mikil hamingja (vinna:))hefur farið í barnauppeldið á heimilinu og eins gott að feður fái gott fæðingarorlof. Einnig er fjölskyldan að rembast við að reisa bæinn sinn, Eiðisvatn 1 hér í Hvalfjarðarsveit og vonandi fer það að ganga betur. Einnig hefur vinnan (áhugamálið) tekið mikinn tíma vegna stækkunar á húsnæði leikskólans Skýjaborgar ( www.skyjaborgin.is ) og fjölgun á börnum og starfsfólki. Að lokum ætla ég að setja inn mynd af henni Hrefnu Rún, njótið fegurðarinnar.

 

Hrefna Rún 6 mánaða

 

 Börn eru gullnáma. Hlutverk hinna fullorðnu er að fá gullið til að glóa.
Loris Malaguzzi

5 skref að jákvæðri hugsun

 Nú skal það takast, að verða leiðinlega jákvæður, endalaust hamingjusamur eins og Sigga og Grétar í stjórninni.

Ég fann þessa punkta hjá Tony Robbins og ætla að skoða þá á næstu dögum og tileinka mér.

 1.
  • ég ákveð að venja mig á að breyta rétt
  • ég fókusa á það sem ég hef en ekki það sem vantar
  • þessi vani skapar karakterinn minn, skapar mína manneskju, hvernig manneskja ætla ég að vera?
  • fókusa á það sem ég hef núna 
  • stefnan er sett á að ekki komi ein neikvæð hugsun ekki eitt neikvætt komment og eftir 7 daga er ég ný manneskja
  • ef það kemur neikvæð hugsun þá nefni ég hana ekki, heldur breytir hugsuninni yfir á jákvæða braut
  • hægt er að takast á við erfið verkefni án þess að einblína á  það neikvæða
2.
  • fókusa á lausnir, ekki dæma mig eða aðra, vera forvitinn ekki dómharður
  • ekki dæma aðra sjá meira dæma minna
  • aðrir hafa ekki alltaf rangt fyrir sér, ég hef ekki alltaf rétt fyrir mér
  • Hvers vegna er ég eða hann / hún neikvæð, vera forvitin og finna afhverju fók er neikvætt, ástæða liggur yfirleitt að baki
  • það er yfirleitt yndisleg persóna innan við þessa neikvæðu dómhörðu skel
3.
  • finna alltaf eitthvað jákvætt við fólk og þá helst við þá erfiðu og gefa hrós
  • reyna að hjálpa fólki að sjá það jákvæða
  • hvað hef ég, ég þarf alltaf að velja og hafna, það er ekki neikvætt að þurfa að velja, við getum ekki allt
  • hvað er mikilvægast fyrir mig, setja fókusinn á það
  • venja sig á að þakka það sem er ekki að ganga, viðurkenna það og gera breitingar
4.
  • ákveddu að vera ekki fullkominn, það er ekki möguleiki að vera fullkominn alltaf við öll tækifæri, ef ég rembist við fullkomnunina hleypi ég að neikvæðni og vonleysi
  • ákveða hvað ég vil, bæta sig en ekki skjóta sig ef maður gerir mistök því ég veit að ég er ekki fullkominn
  • eina leiðin til að mistakast er að hætta, gefast upp
5.
  • gera það að vana mínum að nota orðið trú og trúa
  • lífið er grimmt og ég þarf eitthvað til að halda í á verstu tímum, hvað er betra en trú, trú á lífið gefur mikinn kraft

hvar eiga börnin heima ?

barnÞað er að færast í vöx hér á landi að við foreldrar lengjum dvalartíma barnanna okkar á leikskólum landsins og er 9,5 klukkustunda vistun orðin mjög algeng. Ég var á fundi á föstudaginn síðasta þar sem þessi mál voru rædd frá sjónarhóli foreldra, atvinnurekenda og leikskólans. Það er í höndum okkar foreldranna að ákveða hver mun ala okkar börn upp, skólakerfið eða við sjálf.

Er það réttindi mín sem fullorðinn einstaklingur að fá að eignast barn eða er það réttindi barnsins að fá að eignast foreldra ?

Það þótti mér ansi sorglegt að eftir þennann fund á föstudag þá kom Spaugstofan með sína sýn á þessu máli. Sorglegt segi ég því það var of nálægt þeim raunveruleika sem búum við. Hvenær fara leikskólar að hafa opið fram á kvöld eða opið um helgar ? Hvenær fara grunnskólar að hafa opna gæslu fram á kvöld ? Hver kannast ekki við einhvern sem hefur barnið sitt á leikskóla eða hjá dagforeldrum allann daginn og fer svo í sína leikfimi eftir vinnu og barnið í gæslu á meðan eða Barnaland í Smáralind eða IKEA. Hvað á vinnutími barns að vera langur ?

Spaugstofan talaði um hagvöxt og næringu og að láta rafeindatæki sjá um uppeldi barnanna. Þessi umræða er auðvitað orðin gömul en er í fullu gildi. Barn þarf langa gæslu til að foreldrar geti unnið meira til að getað fengið stærri sneið af hagvaxtarkökunni til að getað keypt meira fyrir sig og barnið sitt. Það þarf lífsnauðdinlega hluti eins og tölvu og tölvuleiki, flatskjá frekar en gamla sjónvarpið, stærra herbergi (þar af leiðandi stærra hús fyrir fjölskylduna) fyrir græjurnar sínar og leikföng. Auðvitað kallar þetta á meiri vinnu foreldra, það er augljóst.

Hin hliðin er eins og ég velti fyrir mér hér áður (22. janúar 2007) þ.e. viðtal við skólastjóra Brúarskóla að það sé vaxandi vandi í þjóðfélaginu okkar að foreldrar eru hættir að tala við börnin sín. Hvað getum við gert til að auka samskipti okkar við börnin okkar. Hvað vaka börn lengi, tveggja til fimm ára börn ? Hversu langan tíma viljum við eiga af þeim vökutíma sem barnið á ? Viljum við meira en 50 % eða minna ? Hver og einn verður að finna það fyrir sig og forgangsraða svo út frá hvað fjölskyldan kæmist af með.

Hver vill lenda í því að koma á leikskólann til að sækja Þröst eftir 23 ára dvöl í leikskólanum af því að það var svo vitlaust að gera í landinu ?

Spurningin er

hvar eiga börnin heima ?


umburðarlyndi

respectMikið er nú gott að búa í heimi þar sem umburðarlyndi ræður ríkjum. Frjálsar skoðanir og skoðanaskipti án átaka og sameiginleg niðurstaða tekin á friðsaman hátt. Allir segja sína skoðun án þess að vera útskúfaðir í samfélaginu, trúarbrögð allra viðurkennd og mismunandi þjóðfélagshópar vinna saman að bættu samfélagi.

Er þetta raunin ?

Hvað ef þessi lýsing á sér ekki stoð í raunveruleikanum ? Hvað getum við gert ? Viljum við meira umburðarlyndi í kringum okkur ? Er til ein rétt skoðun, ein rétt trú, ein rétt lykt ...

Eru börnin okkar að fá rétta mynd af skoðanaskiptum þegar þau fylgjast með fréttum af Alþingi og umræður alþingismanna í fjölmiðlum? Allir standa fast á sinni skoðun og hlusta ekki á hvað andstæðingurinn hefur fram að færa. Eða er þetta skoðun mín eftir ritskoðun og framsetningu fjölmiðla ? Erum við umburðarlynd gagnvart börnunum okkar, börnum sem eru að læra á lífið ?

Umburðarlyndi og virðing eru hugtök sem tvinnast saman og ætla ég að að tileinka mér þau betur. Kannski get ég lagt lóð á vogarskálarnar, umburðarlyndi í hag.

 


tölum saman

talkVar að hlusta á fréttir hjá fréttastofu ríkisútvarpsins (fréttin er hér) en talað var við Björgu Jónsdóttur skólastjóra Brúarskóla.  Brúarskóli sérhæfir sig meðal annars í að taka á móti börnum sem eiga í félags- og hegðunarerfiðleikum. Það að foreldrar tali ekki við börnin sín sé að hafa svona stór áhrif á félagsþroska og hegðun barna er verkefni sem auðvelt er að taka á. Byrjum að tala við börnin okkar.

Hvar eru börnin í forgangsröðinni ? hjá flestum eru börnin í efstu sætunum en krafan að skaffa nóg til að fjölskyldunni farnist vel, börnin komist í félags og tómstundarstarf, langir dagar í leikskóla, skóladagvist og fl. kemur í veg fyrir að börn og foreldrar þeirra læra að tala saman. Finnum gildin í okkar lífi, sköpum fyrst í huganum áður en við framkvæmum, teiknum húsið áður en við byggjum það.

Ef mín gildi og lífsreglur segja mér að taka frá tíma fyrir börnin mín og af hverju það skiptir mig máli gerir alla ákvörðunartöku auðveldari. Við erum endalaust að velja og hafna og fyrir fólk sem sífellt er að taka rangar ákvarðanir þá er gott að hafa gildin, leiðarljósin, lífsreglurnar og markmiðin á hreinu.

Það að vera búinn að ákveða leiðarljósin í lífinu gerir mér auðveldara að framkvæma eftir þeim. Hvað skiptir mig máli í lífinu ? Fjölskyldan, vinátta, hamingja, sjálfsvirðing, lífsgæði ... ? Þessi frétt kom á réttum tíma til að minna mig á hvað skiptir máli í mínu lífi. Þessi frétt vekur vonandi fleiri til umhugsunar hvert þeirra líf stefnir, hvert líf barnanna stefnir. Það að vera með hjálpartæki til að fina leiðarljósin er gott og get ég þá bent á bók Ingridar Khulman Tímastjórnun í starfi og einkalífi sem ég er að lesa þessa dagana.

 


margur gerir ráð fyrir þeim degi sem aldrei kemur

 

timing

Eftir að hafa velt fyrir mér tímanum hér áður þá gerði ég nokkuð sem kom mér sjálfum á óvart.  Ákvörðun hafði verið tekin um úrbætur, forgangsröðun, markmiðasetningu og almennt jákvætt hugarfar. Það sem kom mér á óvart var að ég fór út í bókabúð og náði mér í bókina Tímastjórnun í starfi og einkalífi eftir Ingrid Kuhlman. Með lestri á þessari bók ætla ég að bæta stjórnun á tímanum mínum og forgangsraða verkefnum. Eftir að hafa gluggað í bókina þá sé ég strax þætti sem hægt er að bæta. Talað er um innri- og ytri tímaþjófa sem taka af mér allar afsakanir því mínir tímaþjófar eru innri og koma þar ytri aðstæður málinu lítið við.  Mikið hefði verið gott að skella skuldinni á t.d. bilunum, mistök annarra, skipulagsleysi annarra eða lélegum móral.

Mín verkefni eru t.d. frestun, skortur á sjálfsaga og skipulagsleysi en það eru þættir sem Ingrid talar um í bók sinni. Það er þekkt að frestun er einn stærsti tímaþjófurinn og það er þess vegna sem ég er svo stoltur af sjálfum mér að hafa drifið í að gera eitthvað í málunum, náð mér í lesefni og byrjað. Núna verða mínir klukkutímar jafn langir og hjá þér.

Ingrid talar um nokkrar ástæður þess að við frestum verkefnum og auðvitað gat ég merkt við nokkrar þeirra. Ótti við að taka áhættu, óljós markmið með verkefninu, verkefnið má bíða betri tíma eru verkefni sem ég fer að takast á við í náinni framtíð (var þetta nokkuð frestunarlegt orðalag ?). Hlakka til að takast á við framtíðina.

 


góð byrjun ...

Það að byrja fyrstu hugleiðinguna hér um tíma og tímaþjófa fór illa. Ég settist niður í dag og skrifaði framhald af því, þ.e. hversu framtakssamur ég væri og hvernig ég væri byrjaður að vinna í að forgangsraða, skipuleggja og gera mér almennt grein fyrir vinnunni sem fram undan er hjá mér. Tímaþjófur kom aftan að mér og ég varð undir í baráttunni við tæknina og færslan finnst ekki. Þannig að núna ætla ég að spara mér tíma í framtíðinni og læra betur á kerfið til að henda ekki óþarfa mínútum við skriftir. Alltaf er samt hægt að finna jákvæðar hliðar á öllum málum, ég kem til með að læra af þessum mistökum og að lokum, æfingin skapar...

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband